Fyrir skömmu sneri ég aftur til Norður Írlands, en þangað hafði ég ekki komið síðan 1992 eða áður en friðarsamkomulagið, kennt við föstudaginn langa, var undirritað árið 1998. Belfast var þá tvískipt borg, með lögreglueftirlitsstöðvum út um allan bæ og sprengjuhótunum á veitingahúsum svo til á hverju einasta kvöldi. Ég gleymi aldrei þegar ég var staddur á krá fyrsta kvöldið mitt, þegar allt í einu var slökkt á tónlistinni og gestir beðnir um að yfirgefa staðinn vegna sprengjuhótunar. Allir gengu út en stóðu svo við útganginn -sumir jafnvel fyrir innan - og héldu áfram að spjalla saman eins og ekkert hefði í skorist. Þegar ég spurði hvort ekki væri nú öruggara að fara aðeins lengra frá húsinu, var ég fullvissaður um að þetta væri bara daglegt brauð því fylgdi yfirleitt engin alvara. Mér þótti þetta allt saman mjög áhrifamikið.
Nú þegar ég sneri aftur var ég eiginlega viss um að þetta ástand væri liðið hjá og tíminn hefði grætt flest sárin. Það vildi svo til að ég var staddur í Belfast einmitt á þeim degi sem mótmælendur gengu sínu “appelsínugulu skrúðgöngu”, til að minnast sigurs konungs mótmælenda, Vilhjálms af Óraníu, yfir hinum kaþólska Jakobi Stúart við ána Boyne árið 1690. Það er í sjálfu sér ekki í frásögu færandi að haldið sé upp á sögulega viðburði. En þessi ganga er enn þann dag í dag ekki síður gengin til að ögra kaþólskum íbúum í Belfast og að sýna fram á vald og yfirburði mótmælenda. Enda fer skrúðgangan enn sem fyrr í gegnum kaþólsku hverfi borgarinnar. Það er líka í sjálfu sér merkilegt að hverfi kaþólikka og mótmælenda séu enn víða aðskilin með háum múr, girðingum og gaddavír. Það gefur bænum dapran svip.
Það kom mér mjög á óvart, svo mörgum árum eftir að friðarsamkomulagið var undirritað, hve fjandsamlegt andrúmsloftið er í þessum skrúðgöngum. Hatrið á milli mismunandi trúarhópa er síður en svo horfið. Friður er sagður ríkja. En friðurinn er líkur afar þunnu og brothættu lagi ofan á rótgróna andúð sem enn ristir djúpt. Stór partur af sjálfsmynd beggja hópa felst í því að tilheyra öðru hvoru trúarfélaginu og vilja tilheyra annars vegar írska lýðveldinu eða Bretlandi. Auk þess er mikið lagt upp úr því að miðla þessari sjálfsmynd áfram til næstu kynslóða, eins og greinilega má merkja af skrúðgöngunni.
Síðar í vikunni fór ég svo til Derry (sem mótmælendur kalla ávallt “Londonderry”) sem má segja að sé hjarta baráttunnar fyrir mannréttindum á Norður-Írlandi. Þar heimsótti ég safnið “Frjálst Derry” sem segir m.a. sögu hins blóðuga sunnudags 30. Janúar 1972 þegar 14 óvopnaðir mótmælendur voru drepnir af breskum hermönnum. Safnið er helgað “öllum sem hafa barist og berjast enn fyrir mannréttindum alls staðar í heiminum nú og um ókomna framtíð”.
Það er ekki tilgangur minn að endursegja alla söguna með ljósmyndum en ég vona að með þessum svipmyndum frá Belfast og Derry geti ég fengið áhorfendur til að nema aðeins staðar og íhuga hve erfitt það getur verið að brúa bil og þróa skilning og umburðarlyndi milli hópa sem allt of lengi hafa lifað í ósátt. Við ættum að hugsa hvort að þetta allt saman samrýmist þeirri framtíð sem við viljum stefna að.
Pétur Edvardsson